miðvikudagur, febrúar 21, 2007

Ég er ekkert hætt að blogga, ég bara gleymdi passwordinu í marga daga!!!

Annars gengur mér og mínum allt í haginn þessa dagana. Pabbi minn er allur að koma til og er kominn á Grensásdeild í endurhæfingu. Hann er ekkert nema jákvæðnin og hörkuduglegur. Margir ættu að taka sér hann til fyrirmyndar.
Ég verð líka að deila með ykkur hvað ég á frábæran kærasta, hann kann svo sannarlega að koma manni á óvart. Þegar ég var stödd í Borganesi á föstudaginn um c.a. kl 6 hringir Naglinn í mig og spyr hvar ég sé stödd. Ég segi honum það og verð ég vör við hik á hinum enda línunnar. Ég spyr hann nánar út í málið og segir hann mér þá að hann hafi keypt miða handa okkur í leikhús kl 8 og ég enn í ekki komin heim. En hann Jónas samferðamaður minn brást skjótt við er hann heyrði hvað til stóð. Bensínfóturinn á honum þyngdist um ein 5 kg og ekkert var slegið af. Það var svínað fyrir bíla og keyrt yfir á rauðu ljósi. Ég var mætt á Leifsgötuna kl korter yfir 7. Ég hafði 3 korter til stefnu...sturta, greiða,blása, mála og klæða. Ég fer ekki ofan af því að ég hafi slegið heimsmet kvenna í að hafa sig til, við vorum mætt kl: 19.55 í Iðnó. Einleikurinn Pabbinn er alveg ótrúlega skemmtilegt leikrit og mæli eindregið með því að þið skellið ykkur. Eftir leikritið bauð Naglinn út að borða. Á tímabili hélt ég að hann hefði ruglast og haldið að konudagurinn væri á föstudaginn, en það var aldeilis ekki. Ekki nóg með að maður fái svona prinsessupæju meðferð heldur fékk ég risa pakka á konudaginn líka. Það er sko ekki amalegt að eiga svona kærasta skal ég segja ykkur.

Annars er það helst að frétta að ég og Sandra höfum háð prjónakeppni. Ég byrjaði á hvítri lopapeysu í gær, stefni á að klára hana á innan við viku. Það er nú kannski ekki enginn met tími. En það verður nú að taka tillit til þess að ég er enginn meistari. Nýjustu fréttir herma að Pallan muni slást í hópinn á morgun. Þetta verður mjög spennandi get ég sagt ykkur.

Húsfreyjan á Stóra-Bóli