mánudagur, september 25, 2006

Mótmæli

Langar til að hvetja ykkur öll til að mæta niður í Landsvirkjun í dag.

nánari upplýsingar í eftirfarandi pósti:

Jæja, við erum nokkur sem höfum ákveðið að svara kalli Ómars. Við ætlum að mæta niður í Landsvirkjun á Háaleitisbrautinni í dag kl. 9:00 og setjast þar að, panta fund hjá Friðriki og biðja um frest. Okkur finnst að Alþingi Íslendinga, stundum kallað Háttvirt hafi verið lítisvirt í Kára-hnjúkaumræðunni. Við krefjumst þess að Alþingi fjalli um málið á nýjan leik. Þingmönnum sem stóðu að ákvörðuninni hlýtur að svíða sárt og ef þeir hafa samvisku ætti þá að kenna til. Landsvirkjun er opin til 16:30 og vonandi verðum við þar eitthvað áfram, það verður heitt á könnunni og eru allir hvattir til að kíkja inn og bíða með okkur (eftir Friðriki). Einnig hyggjumst við hnoða saman bænarskrá til t.d. stjórnar Landsvirkjunar, og allt afskaplegafriðsamlegt.

Ég veit allavegana hvar ég væri í dag ef ég væri ekki föst á Hólum!

sunnudagur, september 24, 2006

Ég lifi í draumi....

Hver þekkir ekki þá tilfinningu að geta ekki fylgst með í tíma sama hvað maður reynir. Þetta gerist stundum á föstudögum hjá mér. Það er ekkert að kennaranum, hann stendur við sitt.Meira segja einn af þeim betri sem ég hef haft í gegnum tíðna, tekur jafnvel skemmtilega spretti og fær flesta til að brosa. En allt kemur fyrir ekki, maður er bara ekki í stuði.
Síðasti föstudagur var með þeim verri. Á meðan að kennarinn þuldi upp skilgreiningar á rannsóknaraðferðum var hugurinn út á túni. Kannski úti á túni sé ekki rétt skilgreining, heldur meira á fjöllum. Dagdraumarnir tóku öll völd. Í huganum var ég komin á fjall sem í senn var hrikalegt og stórfenglegt. Ég var að berjast við að ná tindinum. Skref fyrir skref... veðrið var eins og best verður á kosið. Hjartað innra með mér barðist um, þetta var alveg að takast. Bara nokkur skref í viðbót. Þegar ég loksins náði tindinum hríslaðist um mig sælutilfinning. Ég vissi ekki hvort að ég átti að gráta eða fagna, slík var tilfinningin. Ég ákvað að fagna. Í hlýrri skólastofunni var þetta stórkostleg upplifun. Það vottaði ekki fyrir kulda, naglakuli, kalblettum né sultardropa á nefi. Sem sagt algjör draumur sem náði ekki lengra því tíminn var búinn.
Þegar heim var komið var ég full af innblástri eftir þennan mjög svo óvænta fjallasigur minn. Hádegismaturinn saman stóð af einhverju sulli sem væri frambærilegt í hvaða fjallaferð sem er. Eftir að hafa melt matinn í smástund yfir skólabókunum gat ég ekki setið lengur á mér. Út skyldi ég halda. Ég klæddi mig í spandex skokk gallann, skellti Polar-num á mig og setti mp3 spilarann í eyrun og ýtti á play. Ég ákvað að skokka langt, enda í bana stuði. Eftir nokkra kílómetra kom ég að fjalli. Ég er búin að horfa á þetta fjall ansi oft, enda sést það vel út um gluggann á skólastofunni minni. Ég beið ekki boðanna og ákvað að skella mér upp. Þetta var frábært. Veðrið var gott og með góða tónlist í eyrunum sem hélt mér vel við efnið. Ég var aftur komin inn í dagdraum morgunsins. Í þykjustunni var þetta ekkert venjulegt fjall, heldur hrikalegt og stór hættulegt. Áfram gekk ég sannfærð um að ég væri að sigra heiminn.
Það var ekki laust við að þorsti væri farinn að segja til sín, ég ákvað að fá mér að drekka úr læk við fyrsta tækifæri. Það var ekki fyrr en ég var að hefja niður ferðina að ég rakst á smá sprænu. Allt í kringum hana var fallega grænn mosi sem gerði vatnið enn girnilegra og ekki laust við að þorsta tilfinninginn ykist til muna. Ég beið ekki boðanna heldur skellti mér niður á hnén og lagði hendurnar á mosann. Það var ekki allt sem sýndist, um leið og ég beygði mig niður til að súpa úr sprænunni sukku hendurnar á mér á bólakaf ofan í mosann og andlitið á mér á bólakaf ofan í litla lækinn. Rennandi blaut, haug drullug og skít kalt enda var sólin löngu farin.
Ég var glaðvöknuð af öllum dagdraumum, það var mál að halda heim á vit skólabókanna.

mánudagur, september 18, 2006

komin heim að Hólum...

Það verður ekki annað sagt en að helgin hafi verið meiriháttar skemmtileg, já og löng í lengra lagi. Ég fór heim á miðvikudagskveldi og var bensínfóturinn heldur þungur og spennan í hámarki. Ég var nefnilega á leið í BT að kaupa mér tölvu, ekki neina það ekkert venjulega tölvu. Heldur ótrúlega smart tölvu og ekki var verra að með henni fylgdi ómælt magn af DVD myndum. Svo núna get ég verðlaunað sjálfa mig með því að horfa á einn Sex and the city eða Desperate Housewives fyrir svefninn. Já þess má líka geta að þetta eru fyrstu mynddiskarnir sem ég eignast og óska ég sjálfri mér til hamingju með það.
Fimmtudagurinn var hinn ánægjulegasti þar sem við skötuhjúin gerðum okkur ferð í bæinn og skoðuðum okkur um. Það er nú ekki löng leið fyrir okkur að trítla í bæinn og því gerum við það nokkuð oft. Þessar stundir eru alveg uppáhalds hjá mér og fastir punktar í þessum ferðum er að skoða sig um í Fríðu Frænku og láta sig dreyma um falleg og ekki alveg gefins postulíns bollastell. Svo finnst okkur alveg ómissandi að fá okkur kakóbolla á antik kaffihúsinu Mokka og nú er það orðið reyklaust og því bragðast kókóið enn betur en áður.
Föstudagurinn og megnið af laugardeginum fóru nú bara í vinnu. En eins og svo oft áður er ég að vinna í Útilíf, þó að sjálfsögðu bara í hlutastarfi aðra hvora helgi. En á meðan að ég var að vinna skellti Ölli sér í Ísalp ferð inn í Botnssúlur, ég verð að viðurkenna að hugurinn var ekki alveg alltaf inn á gólfi í dýflissunni sem Útilíf breytist í þegar veður er gott og sólin sýnir sínar bestu hliðar. En ferðin gekk vel hjá Ísölpurum og gengu þau á met tíma. Enda var okkur hjónaleysunum boðið í mikla matarveislu þá um kvöldið og vissara að mæta á réttum tíma.
Matarboðið var sannkölluð veisla og reiddi Gústi fram alveg ótrúlega gott Sushi, ég finn bara bragðið ennþá í munninum er ég hugsa um það. Eitt er víst að nú er mál og ekki síst nauðsyn að skella sér á eitt svona Sushinámskeið. Eftir máltíðina var dregið upp stór skemmtilegt partýspil. Ég vann nú svo sem ekki, en það er allt í lagi. Því eins og allir vita er ekki aðal málið að vinna heldur vera með. Og er þeim Silju og Gústa hér með formlega þakkað fyrir góða matarveislu og verður hún endurgoldin áður en langt um líður.
Á sunnudeginum var svo haldið heim á Hóla. Ekki verður annað sagt en að nýji bíllinn minn hafi sligast undan öllum farangrinum og dregið rassinn alla leiðna. En félgasskapurinn var góður. Þar sem ég náði ekki að lesa allt námsefnið fyrir daginn í dag gat ég ekki verðlaunað sjálfa mig með Sex and the city þætti í gær fyrir svefninn. Þess vegna verður tekið á því dag og lesið út í eitt, mér til happs er ekki svo mikið lesefni fyrir morgundaginn.
Í dag eru þó tímamót í mínu lífi. Ég er nefnilega að fara í minn fyrsta jógatíma. Ég held að það veiti ekki afþví að hafa þá á mánudögum, hef það á tilfinninguni að þeir verði nokkuð strembnir í vetur ;)

föstudagur, september 15, 2006

Norðan Vatnajökuls, landið sem hverfur


Jökla og Töfrafoss í fjarska


Regnbogi við Rauðuflúð


Við Kringilsárrana


Tröllagilslækur







fimmtudagur, september 14, 2006

Ný tölva nýtt blogg...

Verið velkomin á nýja bloggið mitt, þetta er nú allt í vinnslu en við skulum sjá hvað setur á næstu dögum.
Annars er allt gott að frétta af mér, skólinn er byrjaður og sveitalífið er tekið við. Á næstu dögum mun ég líklega deila með ykkur helstu viðburðum sumarsins og vonandi sett inn einhverjar myndir með.
jæja læt þetta duga í bili
Villý